Færsluflokkur: Bloggar

,,Sá er vitr er víða ratar

Að lokinni ferð eins og þeirri sem að baki er tekur það hugann ákveðinn tíma að lenda. Lenda í þeim skilningi að endurupplifa þá atburði sem maður hefur séð og heyrt sl mánuð, sortera þá í huganum ásamt því að kúpla sig til baka inn í daglegt amstur hvers manns, hverrar fjölskyldu. Bara töluverð breyting fyrir flesta. Staðir sem við skoðuðum fyrir 3 vikum siðan virðast líka svo skringilega órafjarri:,,Bíddu, hvenær vorum við á Páskaeyju? Einhverntíma á síðasta ári??”

Þegar við spyrjum hvert annað hvað stóð upp úr í ferðinni klóra flestir sér í kollinum enda erfitt að gera upp á milli. En algengustu svörin eru; Páskaeyja - þá kannski vegna staðsetningarinnar, skemmtilegrar sögu og fallega fólksins (!), Kambódía - stórkostlegar fornminjar, verðlag, ferðamátinn, brosandi bjartsýn andlit og svo skemma ekki nuddstofurnar ☺ og Indland, því þrátt fyrir allan skítinn og fátæktina er eitthvað sem heillar mann. Skrautlegt mannhafið, sariarnir, Taj Mahal, stóru skreyttu fílarnir, maturinn náttúrlega og ekki má gleyma öllum djásnunum sem landið situr á.

Eftir að hafa hist í áfallahjálp í reisulok , bjuggum við okkur til bíómyndalista sem við ætlum okkur að horfa á, ein sér eða í smærri hópum (!) og er niðurstaðan eftirfarandi:

MIAMI – Scarface, Brian Palma 1983

PERÚ – Motorcycle Diary 2004, Indiana Jones – Raiders of the Lost Ark 1981

PÁSKAEYJA - Rapa Nui, Kevin Costner 1994

SAMOA – Samoan Wedding 2006

SYDNEY Ástralía – Crocodile Dundee 1986, Mad Max 1979/1981

KAMBÓDÍA – Killing Fields 1984

INDLAND – Gandhi 1982 (eða bara eina af 23.645.273 Bollywood-myndum)

OMAN – The seven Voyages in Oman – heimildamynd

JÓRDANÍA – Indiana Jones, The Last Cruisade 1989

CAIRO Egyptaland – The Purple Rose of Cairo 1985, The English Patient 1996,

Death on the Nile 1978

REYKJAVÍK – 101 RVK.

Að sjálfsögðu má svo rýna í Fjölvabækurnar frægu um Tinna og Kolbein kaftein en í þeim eru margar sagnfræðilegar staðreyndir að finna s.s. eins og í Tinni og kolafarmurinn, Vindlar Faraós, Krabbinn með gylltu klærnar, Fangarnir í Sólhofinu og fleiri.

Við viljum þakka öllum þeim sem lásu ferðadagbókina, fylgdust með okkur og sendu okkur kveðjur en þar er Edda konan hans Halla kokks í 1.sæti ☺

THE GLOBETROTTERS
☺☺☺☺☺☺☺☺☺☺☺☺


Cairo - heim ...

Það hvíldi köld þoka yfir friðsælli Nílará þegar áhafnarbíllinn okkar renndi af stað frá hótelinu. Hrollur fór um dömurnar í nælonsokkabuxunum en það er víst tími til að venjast honum. Heima er snjór og kalt. Farþegarnir okkar gengu um borð í vélina upp rauðan dregil sem var á stigabílnum en við stigann stóð Anna Dís prúðbúin í íslenskum upphlut og bauð þá velkomna. Ekki alveg það sem þeir hafa búist við eftir uppátæki okkar á síðustu leggjum en vá, þeir féllu í stafi. Tóku myndir og spurðu og spurðu út í búninginn. Þeir vissu náttúrlega ekki á hverju þeir áttu von síðar á fluginu, ræ ræ ræ … Áætlaður flugtími heim héldum við að væri eitthvað grín, 7:55 og hugsanleg millilending í CPH vegna mikils mótvindar. En það breyttist nú, enda eru strákarnir okkar engir venjulegir flugmenn :-)  Við heyrðum frá einum farþeganum að honum fyndist við engin venjuleg flugáhöfn og svo sannarlega ólík þeim bandarísku. Samhent, geislandi og frjálsleg og svo væru unglingar í flugstjórnarklefanum ☺ ! Þegar nokkuð var liðið á flugið og allri matarþjónustu lokið kom Björg í hátalarann og auglýsti skartgripasýningu afturí setustofu vélarinnar. Og það var eins og við manninn mælt. Konurnar spýttust aftur eftir vélinni með skartgripapokana og svo var öllum sýnd innkaup ferðarinnar. Þær ó-uðu og æ-uðu yfir öllu skartinu og hvað er betra á stundu sem slíkri en dreypa á Laurent Perrier kampavíni ($ 300) og narta í konfektmola frá Nóa Síríus?! Þegar dömurnar voru í óða önn að virða fyrir sér eðalsteina og gull á lounge-inum hurfu skyndilega allar flugfreyjur úr farþegarýminu og stuttu síðar ómaði seiðandi arabískur takturinn um alla vél. Úr fremra eldhúsinu komum við svo dansandi, eins vel og Josy magadanskennari hafði kennt okkur áður en við lögðum af stað, og bárum fram egypskan eftirrétt með stíl innfæddra. Aumingja Ron gamli sem kom út af einu salerninu fékk næstum taugaáfall og lokaði hurðinni aftur en var dreginn út af tveimur brosandi Icelandair magadansmeyjum. Klukkustundirnar átta þugu hjá eins og óð fluga! Fyrr en varði var kominn tími til að ganga frá og lenda heima í snjónum og var ekki laust við að maður fengi kökk í hálsinn þegar Björg kvaddi farþegana okkar, gestina okkar síðustu 26 daga, og bauð okkur velkomin heim. Eftir að hafa heilsað og kvatt áhöfnina sem tók við vélinni og skilar ,,okkar fólki” til New York fórum við niður í komusalinn þar sem okkur var fagnað með lófataki og ræðu frá Jan Moester, aðalfararstjóra A&K í ferðinni. Við roðnuðum bara yfir fallegum orðum hans í okkar garð en gengum svo á milli farþeganna og kvöddum þá alla persónulega. Skyldumæting var svo í rútuna til Reykjavíkur ( Halli fékk að vísu skriflega undanþágu sökum búsetu) þar sem rifjuð voru upp nokkur góð moment. Já og hlegið aðeins meira. Fjölskyldur okkar biðu spenntar eftir okkur í Reykjavík hvar síðasta hópmyndatakan fór fram í áhafnaherberginu☺.

The Globetrotters, áhöfnin hlæjandi á TF-FIA, FI 1452 segir þessari dagbók lokið en tekið er fram að búast má við fleiri myndum allra næstu daga.

 

Gonsi, Jói Lapas, Maggi Stefáns, Óskar, Björg, Anna Dís, Sigga Toll, Oddný, Ása, Inga, Siggi og Halli.


Cairo dagur 2

Í dag var óskipulögð vöknun! Fólk þurfti að hvíla sig mislengi eftir dansæfinguna í gærkvöldi en eftir morgunverðinn fundu flestir áhafnarmeðlimir sig einhvern veginn sig knúna til að reka múmíur og fornmuni augum í Egyptian Museum. Það er alveg kyngimagnað að sjá múmíurnar liggja þarna í glerkistunum. Andlitin, húðina sem enn er heil, hárið, tennurnar og neglurnar og einhver furðuleg tilfinning hellist yfir mann. Einhver hlýja eða virðing fyrir manneskjunni sem fyrir 4-5000 árum var sprelllifandi og lifði svo allt öðruvísi lífi en við gerum í dag.

Svo dóluðu menn sér hér og þar. Gullbúðin góða var heimsótt af sumum sem voru komnir með ´last minute shopping´ skjálfta, aðrir skelltu sér í súkkið að kaupa krydd, egypska bómull og silki en jú, sumir þurftu að vinna!! Siggi & Hall stjórnuðu gerð veitinganna fyrir heimflugið í flugeldhúsinu af natni eins og þeim er einum lagið en öll sameinuðumst við svo í síðustu kvöldmáltíðinni í matsal hótelsins um kvöldið. Allir snemma í bólið, pick up kl 05.00.


Dagur í Cairo

Sííííííííðasta skipulagða skoðunarferðin. Pýramídarnir skulu það vera og hananú. Fengum hinn egypska Schumacher eða King of the Road, eins og hann vill láta kalla sig hér á götum Cairo, til að fara með okkur í heilt úlfaldahreiður við rætur svæðisins sem umlykur pýramídana. Af fenginni reynslu vildum við sleppa við hinar sívinsælu ilmolíukynningar og komum okkur beint að efninu. 12 úlfalda takk ! Skilum þeim eftir tvo tíma ! ☺ Flissandi liðaðist úlfaldalest Icelandair upp að pýramídunum frægu sem að vísu eru ekki eitt af sjö undrum veraldar lengur. Umgengnin í kringum þá er til háborinnar skammar og við veltum fyrir okkur hvers vegna hluti verðs aðgöngumiðans að svæðinu, sem er ekki lágt, væri ekki nýttur í hreinsunarflokk til að reyna að hemja fokrusl og annað sem er alveg skelfilegt lýti á þessum merkilegu minjum. Jafnvel ofan í gröfunum liggja plastpokar og plastflöskur á víð og dreif svo maður verður afhuga sögunni og verður hugsað til Sorpu heima í Gufunesinu. En allavega, burt frá fokrusli séð, er ekki laust við að maður fyllist lotningu þegar félagarnir þrír þeir Keops, Chephren og Mycerinus blasa við manni í eyðimörkinni með kóngabláan himininn í baksýn. Keops er elstur pýramídanna í Giza eða frá 2570 f.Kr. Hann er líka stærstur. Enda byggður yfir konunginn sjálfan og svo fylgdu arftakarnir sonurinn og sonarsonurinn í kjölfarið. Við fengum líka að fara ofaní gröf sem er nýfundin með steinkistu ofaní en sjálf múmían er á leið í þjóðminjasafnið hér í borg. Það var magnað að skríða ofaní kolsvart myrkrið, við sáum ekki neitt en fundum bara lykt úr fortíðinni og skynjuðum andrúmsloftið fyrir 4000 árum síðan – eða við þóttumst allavega gera það. Magnað! Tókum 37 hópmyndir víða um svæðið og stilltum okkur upp eins og Sfinxinn. Þetta er BARA gaman. Í lok ferðar voru allir orðnir vel úlfaldaðir og renndu sér fimlega niður af dýrunum en þá tók við að borga blessuðum leiðsögumanninum og það eiginlega eyðilagði stemninguna. Það sem eftir lifði dags var frjáls tími!! Sumir fóru í íslenskt sólbað (gæsahúð og rok, handklæðið alltaf að fjúka burt – en sól!!) en aðrir stóðu vaktina í gullbúðinni góðu. Nokkrir hringar, armbönd og hálsmen liggja í valnum eftir yfirferð íslenska landsliðsins og brosir búðareigandinn nú hringinn. Anna Dís skellti sér í Indiana Jones leik, fékk Ahmed leigubílstjóra til að skutla sér suður til Sakkara (Saqqarah) sem er um eina Keflavíkurfjarlægð í burtu frá Cairo en þar stendur elsti pýramídi Egyptalands, byggður/hlaðinn frá 2650-2575 f.Kr. Hann er kallaður þrepapýramídinn, líkist tröppum í lögun og er hann eins konar forveri Giza-pýramídanna. Á leiðinni til baka skoðaði hún teppagerð en teppi frá Sakkara eru ofarlega í gæðaflokki. Tóku hún og Ahmed heimleiðina með Formúlustíl. Um kvöldið dubbuðu menn og konur sig upp og mættu í fordrykk inni hjá Gonsa. Skáluðum fyrir frábærri ferð og samveru sem er í það veginn að taka enda. Anna Dís hafði upp á himneskum egypskum veitingastað þar sem runnu niður gómsætir innlendir réttir og að sjálfsögðu fylgdi sheisha pípa með eplatóbaki í eftirrétt. Stemningin var gífurleg. Eftir matinn skelltum við okkur á dansiball, tókum nokkra mjaðmahnykki eins og Cairo-stelpurnar og skemmtum okkur konunglega. Ása, þegar hún kom út úr leigubílshræinu:,,Þeir eru svo skítugir þessir leigubílar hérna að maður þarf að skeina sig þegar maður stígur út úr þeim …”

Aqaba - Cairo

Nú er bara korter í Ísland. Næstsíðasti leggurinn í dag en hann er með þeim styttri í þessari frábæru ferð sem telur nú 23 daga . Við skutluðumst yfir Sínaí skagann á 50 mín. og vorum lent í Cairo fyrir hádegi. Vorum afgreidd í gegnum ´private jet terminal´ á svipstundu, egyptarnir sleiktu frímerkin í passana á ógnarhraða og stimpluðu meðan áhafnarmeðlimir tæmdu hraðbankann í salnum. Það á sko að gera góð kaup í þessu síðasta stoppi ☺ . Á leiðinni inn í bæ sáum við unglinga sitja kæruleysislega uppá og út fyrir handrið í skólabyggingu sem var 5-6 hæðir og við gripum andann á lofti. Ég spyr enn og aftur, hvar er Herdís Storgaard í þessu landi?? Stuttu síðar ókum við fram á menn sem voru í jafnvægisæfingum uppi á flettiskilti í ca 30 metra hæð án alls öryggisbúnaðar. Við, sem sitjum árlega námskeið í Umhyggja alla leið, áttum ekki til eitt aukatekið orð. Tékkuðum inn á Cairo Conrad, sem er 5 stjörnu hótel við Níl með útsýni yfir allt gúmolaðið svo vægt sé til orða tekið . Húsin hér í kring eru vægast sagt hrörleg en samt sem áður eru gervihnattadiskar eins og sveppagróður á öllum húsþökunum . Á þaki eins hússins fyrir neðan herbergi undirritaðrar eru endur, hænsn og 4 kindur – á fjórðu hæð!!! Maður bara hristir hausinn.--- Fötin okkar fóru úr tísku meðan við biðum eftir ferðatöskunum okkar en á endanum náðum við þó öll saman niðri í lobbyi og haldinn var fundur um framhaldið. Ákveðið var að skella sér í súkkið (m.ö.o. markaðinn, ,,suq" á arabísku ) og fjárfesta í eðalmálmum ásamt fleiru. Það tók á taugarnar hjá sumum, eða bara flestum, að ferðast í gegnum þessa rússnesku rúllettu sem umferðarmenningin er hér í Cairo. Enginn Óli H Þórðar til að minna menn á að sýna tillitssemi og skynsemi í umferðinni - ó nei! Snæddum kvöldverð á veitingastað hinu megin götunnar við hótelið en til að komast þangað þurfti að komast yfir 4 akreinar og var það bara ´survival of the fittest´ að komast alla leið. Sá sem var vitni að hópi 12 öskrandi einstaklinga á grindarhlaupi yfir götuna hefur ekki haldið að þar færu miklar vitsmunabrekkur!! Bjóðum góða nótt í landi faraóanna.

Dagur í Aqaba

KL 10.00 stundvíslega lögðu 10 áhafnameðlimir af stað í 2ja tíma ökuferð upp að hinni týndu borg Petru. Petra var fyrst uppgötvuð af svissneskum landkönnuði, Johanni Ludwig Burckhardt, árið 1812 en talið er að hún sé um 2500 ára gömul. Það voru Nabatear, heiðingjar, sem voru á svæðinu frá ca 500 f.Kr til 100 e.Kr sem hjuggu guðdómlegar grafhvelfingar og líkneski af guðum sínum útí klettana og birtist borgin manni að óvörum eins og lygasaga þegar maður gengur í gegnum þröngt djúpt gilið. Petra var einnig miðstöð viðskipta, krossgötur verslunarleiða allt frá Gaza í vestri, Damaskus í norðri, Aqaba við Rauðahafið og alla leið yfir í Persaflóa. Allt fram til ársins 1985 þegar Petra komst á heimsminjaskrá UNESCO bjó fjöldi bedúína í hvelfingunum en þá ákváðu yfirvöld að flytja þá burtu og byggðu handa þeim heilt hverfi í Wadi Moussa skammt frá Petru. Í júlí á síðasta ári var Petra kjörin eitt af 7 undrum veraldar. Á leiðinni upp í fjöllin ók hópurinn fram á bedúínatjöld, geitahjarðir og smala. – OHA og ADS fóru í hádegisverðarsiglingu á Rauðahafinu, smygluðu sér með hópi Hollendinga sem var í Lions-ferð og kom í ljós þegar leiðsögumaður þeirra, hin síbrosandi Marianne, sá glitta í 66°N merki á peysunum okkar að hún var alvön leiðsögn um Ísland og var mikið spjallað og hlegið. Heimurinn er merkilega lítill. Snæddum ´heima við´ og fórum snemma í bólið.

Muscat - Aqaba

Mættum spræk sem alltaf í pick-up korteri fyrir áður áætlaðan tíma því við ætluðum að ná að skoða The Grand Mosque, nýju stóru moskuna þeirra Múskatmanna sem ómanski soldáninn Qaboos Bin Said lét reisa. Og það varð sko enginn fyrir vonbrigðum með þá heimsókn. Hvílíkt listaverk sem byggingin er, marmari á marmara ofan og uppi í loftinu 35 metrum ofar hangir þessi líka svakalega 7 tonna kristallsljósakróna. Hann Swarovski kallinn mætti bara skammast sín. Á gólfinu í moskunni liggur stærsta handofna motta í heimi, ef mottu skyldi kalla, sem 8oo íranskar konur sátu í fjögur ár við að hnýta. Talið er að kostnaður við byggingu moskunnar liggi í 80 millj bandaríkjadala. Þessi stórbrotna moska er opin almenningi snemma á morgnana og urðum við stelpurnar að hylja allt hár og hold til að fá að berja herlegheitin augum. -- Tókum svo á móti farþegunum úti í vél með svartar blæjur fyrir andlitinu. Einhvern veginn fannst okkur nú samt eins og þeir vildu bara sjá brosin okkar stelpnanna ☺ Flugið til Aqaba tók rúmlega 3 klst því ekki máttum við fljúga inn yfir lofthelgi Saudi Arabíu og þurftum því að taka á okkur þokkalegan sveig. Eftir lendingu tókum við til hendinni, gerðum birgðatalningu í lest vélarinnar og þrifum eins og við gátum því við búumst við að lítill tími gefist til þess í heimfluginu nk sunnudag. Vorum afgreidd frekar fljótt í gegnum flugstöðina enda er hún ekki stór, mun minni en á Akureyri. Aqaba er strandbær sem stendur við Aqabaflóa í krikanum austan við Sínaískagann. Blokkarhverfið í hlíðinni á móti sem maður sér af hótelsvölunum hjá okkur, svona eins og Hvassaleitið, er borgin Eelat í Ísrael. Í 15 km radíus mætast nefnilega landamæri fjögurra landa; Egyptalands, Ísrael, Jórdaníu og Saudi Arabíu. Náðum að skype-a heim og fleygja okkur aðeins fyrir næstu hópeflisæfingu sem Björg hélt inni hjá sér. Morgundagurinn skipulagður fyrir landkönnuðina sem ætla að fara og skoða Petru, stóra undur Jórdaníu.

Dagur í Muscat

Við vorum varla búin að smyrja á okkur Coppertone-inu úti við laug þegar fréttir bárust af boði í hádegisverð með farþegunum okkar. Vorum búin að hlakka til að fá að máta sólbekkina og anda að okkur hlýjunni hér í Oman en verðum bara að fara fram á að Loftleiðir splæsi í brúnkuklúta eða ljósakort eftir heimkomu. Eftir 45 mínútna keyrslu yfir nokkur fjöll komum við loks að veitingastað við fallega smábátahöfn og snæddum við þar arabíska smárétti og dreyptum á geggjuðum lemon-lime safa. Sátum svo í sólinni þar úti á veröndinni og nutum augnabliksins. Kl 16.00 var útkall alfa í súkkið og verslað svolítið svo við fáum nú ekki fráhvarfseinkenni. Getum ekki höndlað það. Borðuðum kvöldverð snemma því planið er að skoða stóru moskuna á leiðinni út á flugvöll eldsnemma í fyrramálið. Ása úti á götu í Muscat: ,,Rosalega er lítið af konum í lausu hérna í Muscat...".

Jaipur-Jodhpur-Agra-Muscat

Kominn tími til að kveðja Jaipur. Flestir bara fegnir. Flugum í hálftíma til Jodhpur þar sem farþegarnir okkar gengu um borð og fengu enn eitt broskastið þegar þeir sáu okkur, við allar klæddar í litríka sari og punjabi. En sökum sandstorms í Agra töfðumst við og sátum á rampinum í Jodhpur í næstum fjóra tíma áður en heimild fékkst til flugtaks. Farþegarnir okkar létu þessa seinkun engin áhrif hafa á sig! Fólk þáði bara enn meira kampavín, annan Bloody Mary eða greip bók að lesa. Og börnin tvö sem eru með okkur sátu bara og teiknuðu. Ekkert að gera við sandstormi. Á endanum náðum við þó til Agra og vorum þá orðinn svo sein í tímaplaninu að ekið var í snarhasti með farþegana inn að Taj Mahal og út á flugvöll aftur. Hluti af áhöfninni (,,five freys og two kokks") gerði þó betur og skaust á eftir farþegunum inn að hofinu og út í vél á ENN skemmri tíma!! Hið heimsfræga musteri ástarinnar, Taj Mahal, lét Shah Jahan keisari reisa í minningu heittelskaðrar konu sinnar Mumtaz Mahal er hún dó af barnsförum eftir fæðingu 14. barns þeirra hjóna 39 ára að aldri. Hún bað hann þriggja óska fyrir andlátið og var sú fyrsta að hann tæki sér ekki aðra konu eftir hennar dag, að sjá vel fyrir foreldrum sínum og börnum þeirra og að reisa sér fallegt minnismerki eða grafhýsi. Hann varð við öllum óskunum þremur. Taj Mahal er hannað í svokölluðum Mughal-stíl eða stíl sem sameinar Persnesk, Tyrknesk, Indversk og Islömsk einkenni. Það tók 22.000 manns 22 ár að fullgera musterið en það komst á heimsminjaskrá UNESCO árið 1983. -- Eftir 3:15 tíma á flugi frá Agra, og samtal á bylgjunni við 2 einmana flugmenn Air Atlanta á cargovél sem dauðöfunduðu strákana okkar af félagsskapnum, lentum við síðan í soldánsríkinu Oman, nánar tiltekið í Muscat. Hlutirnir gengu mun hraðar hér á vellinum en við höfðum áður vanist og komst Óskar Harley-mekki svo vel að orði að verðmiðinn væri ennþá á honey-trukknum. Allar græjur splunkunýjar (Fyrir þá sem ekki eru inni í daglegu flugmáli er honey-trukkur FLUGVÉLAKLÓSETTSUGA) Ókum svo inn í borgina og tékkuðum inn á þetta fína Radisson SAS hótel. Thanx MAS! Dinner úti við laug og svo kíktu þeir allra hörðustu á næturlífið og skelltu sér á klúbb sem minnti einna helst á reffilegt sveitaball í Skagafirðinum. Hljómsveitin sem hélt uppi fjörinu samanstóð af aðalsöngvara sem var drottning drag-drottninganna, tvær bakraddasöngkonur sem höfðu hreinlega gleymt að klæða sig og svo þrír aðrir japanskir tónlistarmenn sem hafa örugglega unnið hæfileikakeppni í sínu héraði heima í Japan og hreppt hnossið í danshljómsveit hússins. Hlógum okkur í svefn.

Jaipur - Bleika borgin

Kl 10.00 stundvíslega vorum við mætt með myndavélar á bumbunni niður í lobby á leið á vit nýrra ævintýra. Nýrra rústa, fornminja, markaða you name it. Daglegt brauð hjá okkur. Leiðsögumaður dagsins var merkilegt nokk bara frekar fyndinn og skemmtilegur svo að fyrsta hláturskastið tókum við áður en rútan ók út af hótelplaninu (fékk nokkra $$$ í lok dags). Leiðin lá fyrst í gegnum borgina þvera en það tók sinn tíma vegna heilagra kúa sem spígspora um göturnar og horfa hvorki til hægri né vinstri. Liggja jórtrandi þvert yfir umferðareyjar og njóta síðustu máltíðar. Borgin Jaipur er stærsta borg Rajasthan, fyrsta skipulagða borg á Indlandi, og þýðir nafn borgarinnar ´hin bleika borg´. Miðborgin er nefnilega bleik eða þannig, örugglega hjá litblindum, var og er enn reglulega máluð terracotta-rauðbrún. Hún er miðstöð gimsteinavinnslu í héraðinu og vinna rúmlega 170.000 manns við greinina. Leiðsögumaðurinn okkar, sem okkur minnir að heiti Rajid, sýndi okkur sérstaklega bíóið í bænum en Bollywood er náttúrlega dugleg að verpa nýjum myndum og eru vikulega frumsýndar 3-4 nýjar kvikmyndir og ganga þær fyrir fullu húsi í allt að 6 mánuði. ( Hrafn Gunnlaugsson, eat your heart out!) Svo lá leið okkar í Amber fort eða Gulu höllina en þar fyrir neðan biðu okkar 6 fræknir fílar og juðuðumst við upp fjallshlíðina í þvílíku gleðikasti að annað eins hefur hvorki sést né heyrst. Amber fort var byggt á 16. öld og var heimili Raja Jai Singh II Maharaja og síðar arftaka hans fram á nýlendutíma. Hann átti tólf eiginkonur en til þess að halda þeim öllum góðum og koma í veg fyrir óþarfa afbrýðissemi þá byggði hann höllina þannig að úr svefnherbergi hans lágu 12 leynigöng að dyngjum eiginkvennanna og var leikurinn þannig að þær máttu ekki banka hjá honum – bara hann hjá þeim. ,,He didn´t want any traffic-jam at his bedroom door” eins og Rajid sagði og okkur fannst bráðfyndið. Svo má eigi gleyma hjákonunum 96 sem hann stundaði ef hann langaði ekki í sínar 12! Í einni betristofum hallarinnar eru mögnuð listaverk á veggjunum eða m.ö.o. veggirnir eru eitt listaverk. Úthogginn marmari með blómamynstri, ekkert blómið eins, og fjöldinn allur af litlum mismunandi flísum sem minna á mosaík prýða veggina. Inn á milli eru glerflísar sem voru málaðar með sterlingsilfri að aftan svo þær líta út eins og spegilbrot. 7,5 milljón stykki af þeim takk fyrir!! Þannig náðu íbúarnir að ná endurkasti af olíulömpunum og magna upp ljóstíruna þegar rökkva tók. Snilld. Rajid sagði okkur líka frá páfuglinum sem er þjóðarfugl Indlands. Ef maður er fundinn sekur um að drepa páfugl má sá hinn sami eyða lífdögunum bak við rimla en ef maður fremur morð ,,then you can easily bargain your way out!” Á heimleiðinni heimsóttum við Gull & gimsteina hf og fjárfestu nokkrir í gulli og gimsteinum, öðrum nægði að fá að máta skartgripi og láta taka af sér myndir með þá. Hinu megin götunnar var Sari & sjöl hf og græddi búðareigandinn bara þokkalega á okkur þetta skiptið. Sagði að kaupóðir Íslendingar hefðu verið hjá þeim fyrir ca mánuði. Við könnuðumst ekkert við það!!! Eftir skoðunarferðina kusu drengirnir að slappa af á Gyllta túlipananum en dömurnar fóru annað hvort í handsnyrtingu á stofu sem hefði átt að bera nafnið “Beauty School drop-outs” og tók rúmlega klukkustunda sjálfsmorðsakstur á indverskum áttavilltum tuk-tuk eða rikshaw þó stofan væri bara hinu megin við hornið eða í nudd á þá svaðalegustu nuddstofu sem viðkomandi höfðu komið á. Fyrst þurfti viðtal við föður nuddstofueigandans en á skrifborði fyrir framan hann var hlustunarpípa og vigt á gólfinu. Ekki er laust við að tvær grímur hafi runnið á nuddóðu viðskiptavinina því þetta minnti á skoðun hjá skólahjúkkunni í 12 ára bekk. Borðuðum gómsætan indverskan mat um kvöldið og lögðumst til svefns vel upplýst um Maharajana. Stutt nótt fyrir höndum ☹ Smá viðbót frá Rajid: Vegna fjölda brúðkaupa sem við urðum vitni að á götum úti, eða öllu heldur brúðkaupsskrúðganga sagði hann okkur nokkrar staðreyndir um ´arranged marriages´ í Indlandi. Þegar brúðkaup er fyrirhugað hjá manni og konu láta foreldrarnir stjörnuspeking fara yfir stjörnukort þeirra beggja og vinna úr þeim ákveðna tölu á skalanum frá 1 - 36. Ef útkoman er fyrir neðan 18 þá passa þau augljóslega ekki saman og ekki verður af brúðkaupi. Útkoman hjá Rajid og frú var 28 svo hann er í góðum málum. :-)

Næsta síða »

Um bloggið

9 World Wonders 6. febrúar - 2. mars 2008

Höfundur

Áhöfn FI-1452
Áhöfn FI-1452
Felias Fogg okkar tíma
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...-13_47-1254
  • ...-13_47-1252
  • ...-13_47-1251
  • ...-13_47-1247
  • ...-13_47-1246

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband