Færsluflokkur: Bloggar

Siam Reap-Myanmar-Jodhpur-Jaipur

Óguðlegur p/u tími enn og aftur. En núðlusúpan í morgunverðarhlaðborðinu var nógu góð ástæða til að stökkva fram úr 15 m2 rúminu á hótelherberginu og hraða sér í brekka. Klæddumst kambódískum fötum og heilsuðum farþegunum okkar á kmer þegar þessar elskur gengu um borð. Aldrei of snemmt að fá sér dýrindis Laurent Perrier kampavín (NB 20 þús kr flaskan) fyrir flugtak enda mikið ævintýri framundan. Hentumst yfir til Myanmar, gamla Burma, hvar farþegarnir og næstum öll áhöfnin (Óskar og Oddur sáu um flugvélagæslu) ók inn í borgina Yangon og skoðuðu Swedagon pagóðurnar frægu sem eru hlaðnar 7 tonnum af gulli á ég veit ekki hvað mörgum búddhalíknesjum- og turnum svo maður fær ofbirtu í augun og verður að ganga þar um með sólgleraugu. Stelpurnar stóðu sig svo hrikalega vel að þær komust á markað og það er komið nýtt dress í safnið, Myanmar-gallinn!! Farþegarnir göptu þegar þeir komu aftur útí vél. ,,When and where did you have the chance to go shopping???" Nýtt lúkk í hverri höfn og ferðatöskurnar hjá okkur stelpunum eru á síðustu millimetrunum. En við njótum hverrar mínútu og finnst gaman að gleðja fólkið okkar sem okkur finnst alveg hrikalega vænt um. Fyrir flugtak frá Myanmar sýndu farþegarnir okkur hinum safety demonstration og láku tárin á sumum af hlátri við það tilefni. Sú yngsta og sú elsta, 11 og 81 ára gömlu Önnurnar okkar ásamt þremur öðrum bægsluðust um í björgunarvestum, veifuðu súrefnisgrímum og unnu sér inn mörg stig hjá okkur fyrir vikið. Svo var farið aftur í loftið og ferðinni heitið til Jodhpur á Indlandi þar sem gestirnir okkar fóru af og við áhöfnin tollafgreidd (gera varð grein fyrir hvar plastið í laptopnum var unnið og hvaða úrsmiður smíðaði úrið, slík var skýrslugerðin) en þar sem flugvöllurinn í Jodhpur er hervöllur mátti vélin okkar ekki standa þar og því komum við okkur vel fyrir í flottu lazy-boy sætunum í TF-FIA og flugum í 28 mínútur yfir til Jaipur. Tékkuðum inn á Golden Tulip sem hefur úps, óvart verið byggt í miðju fátækrahverfi, og héldum stórskemmtilega debriefingu & dinner á hótelbarnum. Vorum að spá í að kaupa nýtt lag á iTunes fyrir hótelið, héldum að þetta væri djók þetta eina lag með Norah Jones, en svona er nú bara Indland.

Siam Reap dagur 2

Á meðan ,,strákarnir okkar” flatmöguðu við laugina og slöppuðu af fórum við stelpurnar í tuk-tuk inn að þorpinu fljótandi sem heitir einfaldlega The floating village. Það stendur á bökkum Tonle Sap vatnsins rétt fyrir sunnan Siam Reap. Fararstjórar og aðrir höfðu dregið úr okkur að fara þangað sökum þurrka og vatnsleysis en raunin varð önnur. Í þorpinu búa innfæddir ásamt Víetnömum og stunda þar verslun með vörur sínar. Sem við skröltum eftir rykugum veginum í átt til bakka árinnar sem rennur að vatninu fórum við framhjá óteljandi kofaskriflum byggðum á stultum því þarna hækkar vatnsborðið um fleiri metra nokkrum sinnum á ári – svo er þá ekki bara best að búa í bát??? Í drullubrúnu vatninu stóðu fiskimenn og köstuðu netum sínum, konur þvoðu potta og pönnur meðan aðrir gengu örna sinna útí vatnið í næsta bát … brrrrr … . Þetta var hreint ótrúleg sjón. En fólkið var vingjarnlegt, leyfði okkur að ganga í bæinn og skoða kofana þeirra og taka myndir. Á leiðinni til baka upp ána tókum við uppí tvö lítil börn, 9 og 11 ára gömul systkin sem voru á leið í skólann sem að sjálfsögðu voru fljótandi skólastofur bundnar við bakkann. Við kíktum þangað líka og sögðum börnunum hvaðan við værum og sýndum þeim Ísland á hnattlíkani. Þau vissu nú greinilega ekki mikið um legu Íslands en heilsuðu og kvöddu okkur hressilega með því að hrópa kveðjur á kmer öll saman í kór. Engin agavandamál á þeim bænum.


Eftir þessa ævintýralegu skoðunarferð dóluðum við okkur heim á hótel og tókum út hvíld við laugina, allir nema Anna Dís sem skellti sér í loftbelg og fékk tækifæri til að mynda Angkor Wat frá allt öðru sjónarhorni en við hin :-) og svo skelltum við okkur öll í nudd. Nærri má geta að eftir dvöl okkar í Siam Reap liggi samanlagt á þriðja tug nuddtíma á hinum ýmsu nuddstofum í grennd við hótelið. Þeir eru bestu nuddarar í heimi! Borðuðum á frægasta veitingastaðnum á Pub street, Red piano, þar sem kokteillinn Tomb Raider selst eins og heitar lummur enda uppáhald verðandi tvíburamömmunnar og leikkonunnar Angelinu Jolie. Tókum síðasta nuddtímann fyrir svefninn, þurfum að vakna kl 04.00. Good night, under the moonlight and don´t let the bedbugs bite!!

Dagur í Siam Reap

Lítill fugl hafði hvíslað því að okkur að í stað þess að fara í rándýrar ,,loftkældar” skoðunarferðir ættum við að leigja okkar eigin tuk-tuk, sem er pínulítill vagn á hjólum fyrir fjóra dregin af skellinöðru, sem við og gerðum. Fyrir heila 10 dollara á mann (far, leiðsögumaður og þjórfé) skoðuðum við allt sem við vildum sjá. Byrjuðum á hinu risastóra og fræga Angkor Wat sem í upphafi var byggt sem hindúahof árið 1112 af Jayavaraman sjöunda, til dýrðar Vishnu einum af þremur guðum í Hindúatrúnni. Angkor Wat er frábrugðið öðrum hofum af því leitinu til að það snýr mót vestri en öll önnur mót austri. Við fall Kmeranna á 15.öld urðu siðaskipti í landinu eftir að Tailendingar réðust hér inn, þjóðin skipti um trú og Angkor Wat varð búddahof. Svo leið tíminn. Það var svo um 1858 að franskur ferðalangur hnaut um eitthvað í skóginum sem í ljós kom að var hofið fræga – hulið þéttum trjágróðri. Áfram skunduðum við svo á 4 tuk-tukum í gegnum Angkor Thom og inn í Ta Prohm hofið sem er frægt fyrir risavaxnar trjárætur sem umlykja hálfhrunið hofið. Liggja þar úthöggnir steinhnullungar eins og hráviði út um allt, viljandi látið óhreyft. Ta Prohm hofið lét hinn áðurnefndi Jayavaraman reisa til heiðurs fjölskyldu sinni og er merkilegur turn einn, opinn til himins, en í veggina voru hoggnar litlar holur og demöntum komið fyrir í þeim til að endurkasta dagsljósinu og lýsa upp turnherbergið. Magnað! Demantarnir og öll önnur verðmæti Kmeranna hurfu síðan með Tælendingunum sem fóru ræningjahendi um landið. -- Trén sem hafa vaxið svona skemmtilega utan um og yfir veggi hofsins heita Stung á kmeramálinu en Silk á ensku. Þau verða 4-500 ára gömul og minnir áferðin á rótunum á silki, þaðan dregur það heiti sitt. Hvar sem maður gengur um hofin sitja menn og konur á bæn fyrir framan Búddalíkneskin og liggur seiðandi reykelsisangan í loftinu. -- Boradya leiðsögumaður hafði fengið strangar fyrirskipanir um að á markaðinn þyrftum við stelpurnar að komast og ekkert hnu með það!! Voru keypt alls kyns dress og dót fyrir mann og annan og fóru allir skælbrosandi heim á hótel og skelltu sér í sturtu og fóru í sparifötin því okkur hafði verið boðið í kvöldverð með farþegunum okkar á Raffles Grand Hótelinu sem er víst ekkert slor hér í bæ. Fyrir kvöldverðinn var okkur boðið að hlusta á fyrirlestur ungs manns, Sam, sem sagði okkur frá lífinu á árum ógnarstjórnar Pol Pots frá 1975-1979. Sá vildi breyta landinu í einskonar ,,jarðræktar-draumaland”, hrakti burtu fólk og tæmdi heilu borgirnar, lagði niður verksmiðjur og skóla og svipti fólkið öllum veraldlegum eigum sínum. Hver sá sem var menntaður, talaði erlent tungumál eða hafði sérmenntun af einhverju tagi var umsvifalaust tekinn af lífi. Talið er að um 2 milljónir manna hafi þannig týnt lífi eða látist í þrælkunarbúðum úr sulti og seyru. Víetnamskar hersveitir réðust svo inn í landið 1978 og náðu höfuðborg landsins Phnom Penh á sitt vald, komu á nýrri og mildari kommúnistastjórn, ef svo má að orði komast, og hörfuðu Pol Pot og herdeildir Rauðu Khmeranna þá inn í frumskóginn. Í Kambódíu eru enn í jörðu um 1 milljón jarðsprengja eftir óöldina og er hvergi öruggt að ganga utan stíga. Við sáum mýmörg dæmi um afleiðingar þessa viðbjóðsvopna, því fótalausir menn og konur og menn sem augun höfðu verið stungin úr sátu víða og betluðu á götum borgarinnar. -- Áttum skemmtilegt kvöld með farþegunum okkar, borðuðum dýrindis kambódískan mat og horfðum á sýningu danshóps Heiðars Ástvalds hér í bæ segja sögur í formi dansa. Nú eru allir orðnir nánir vinir í skóginum ☺ 

Sydney dagur 2

Vá, það er sama hvar í heiminum við höfum drepið niður fæti, alls staðar vaknar maður fyrir allar aldir, engin leið að sofa út. Því er keyrslan í ferðinni farin að segja til sín, fólk er orðið slappt og þarf á apóteki Bjargar að halda eða hreinlega að halda sig heima og taka því rólega. En eins og Íslendingar í den keyptu sér flug & bíl til AMS leigðu frískustu heimsfararnir sér hjól & leiðsögumann og skoðuðu borgina frá öðru sjónarhorni en margur annar. M.a. var hjólað upp á brúna frægu sem Bretar gáfu Áströlum fyrir nákvæmlega 76 árum síðan, staldrað við á einum elsta pub borgarinnar og komið við í kaþólskri kirkju sem sjálfkrafa telur niður til heimsóknar æðsta manns kaþólsku kirkjunnar, Benedikts XVI, sem er eftir nákvæmlega 148 daga. En það sem vakti athygli hjólreiðarmanna mest var allfjölmennur hópur fólks sem var úti að skokka. Eftir nánari eftirgrennslan kom í ljós að starfsmenn stórfyrirtækis eins fengu greidd tvöfaldar vinnustundir fyrir að fara út og lyfta bakhlutanum frá skrifstofustólnum í hádeginu!! Svo skelltu flestir sér í wildlife-dýragarðinn við Darling Harbour og sjá kengúrur og kolala og strjúka eðlum af öllum stærðum og gerðum.. – Við getum ekki lokið við þessa blogfærslu án þess að minnast á ökumenninguna hér í borg. Hér eru strætóbílstjórar morðóðir og hljóta að fá stig, kauphækkun eða lóð a góðum stað fyrir að rota gangandi vegfarendur með hliðarspeglinum eða hreinlega keyra þá niður. Kristur krossfestur! Kvöldsins notið niðri við höfn. Pakkað og farið snemma í bólið, langur dagur a morgun.

Dagur í Sydney

Morgunverðarhlaðborðið á Grace hótelinu var þannig að maður hefði viljað vera þar allan daginn! Skunduðum öll rakleiðis niður að Sydney Harbour og það fyrsta sem greip augu okkar og eyru var vígalegur ,,aboriginee” að blása í “digiridoo” í takt við eðalfönk - keyptum cd af honum án þess að hika. Stöldruðum við og ákváðum að setja í hæga gírinn og njóta hvers einasta augnabliks. Anda rólega inn = VIÐ ERUM Í SYDNEY!!!, ÓPERUHÚSIÐ, HÖFNIN, (LEITIN AÐ NEMO!) ANDRÚMSLOFTIÐ, FRUMBYGGJARNIR, HLJÓMARNIR Í TRÉRÖRINU….. blása frá = RIGNING HEIMA, 5°C, DUMBUNGUR, SIGGI STORMUR, STRESS, PÓLITÍSKUR ÓSTÖÐUGLEIKI Í REYKJAVÍKURBORG... -- Við pósuðum fyrir framan óperuhúsið, stóðum á höndum, flissuðum og glöddumst yfir líkamlegri staðsetningu okkar á heimsvísu. Óperuhúsið í Sydney, þetta fræga óviðjafnanlega meistaraverk, hannaði danski arkitektinn Jörn Oberg Utzon 38 ára gamall er hann sigraði hönnunarkeppni um húsið árið 1956. En í miðju pólistísku umróti árið 1966 þegar ný svæðisstjórn Nýju suður-Wales tók við skáru þeir á alla styrki til Utzon svo hann varð að hætta við hálfnað verkið. Hann yfirgaf landið, skyldi einhvern furða, og hefur ekki komið þangað síðan. En byggingu hússins lauk og það opnað formlega þ.18.október 1973. Eftir að hafa myndað óperuhúsið hátt og lágt ákváðum við að skipta liði en sú tilllaga dó að sjálfu sér. Skipulagður aðskilnaður áhafnarinnar var okkur offiða og ósjálfrátt römbuðum við öll inn á sama kaffihúsið. Eftir pepp og klapp á bakið fórum við flestar stelpurnar í siglingu um höfnina, Anna Dis gerðist djörf og gekk upp á Sydney Harbour brúna eftir crash-course í brúarklifri og þar til gerðum galla en getiði nú hvert strákarnir fóru?? Að versla! Muhahahhahaha… Snæddum kvöldverð á veitingahúsi gegnt óperunni sem heitir ARIA, s.s algjörlega copy/paste slóð fyrri ferðarinnar. Eftir matinn ætluðu the Globetrotters að skella sér út á lífið og héldu rakleiðis á næsta klúbb sem mælt var með af einum að þjónum ARIA. Þegar þangað kom mætti okkur leiðindaviðmót, við þurftum að vera með vegabréf og alles þótt við litum nú ekki beinlínis fyrir að hanga í 18. afmælisdeginum. Ekki þótti okkur mikið fara fyrir gestrisninni. Hnuss! Inga Rún:,, Ekki hlæja krakkar en hvað er klukkan??”

Apia - Sydney

Jæja, kominn tími til að yfirgefa eyjuna grænu og skjótast fram yfir daglinuna svona til að toppa allt rugl í líkamsklukkunni. Strákarnir okkar áttu daginn alveg, höfðu keypt sér pils fyrir flugið og voru hinir flottustu í klæðum innfæddra. Farþegarnir voru líka hæstánægðir að ÖLL áhöfnin væri uppáklædd í tilefni dagsins. Flugtíminn til Sydney var 5:35 og var boðið upp á kokteilinn ,,Love is in the air” (því við vorum ekki í loftinu á Valentínusardaginn) þegar við renndum yfir daglínuna. Mikið fjör um borð og er bridge-klúbburinn orðinn fastur punktur í setustofu vélarinnar. -- Lentum kl 13.25 að staðartíma en það er nú voða skrítið að missa svona heilan sólarhring úr. Tollgæslan í Sydney ákvað að við áhöfnin og hver einasta taska í lestum vélarinnar skyldi gegnumlýst og endaði ævintýrið með 1 ½ klst gönguferð um alþjóðaflugvöllinn. Gonsi þurfti að hósta upp 5 þúsund dollurum fyrir farþega sem hafði ekki alla pappírana sína í lagi og dönsuðum við í gegn um NOKKRAR gegnumlýsingar í viðbót og brostum bara hringinn - þó hugur fylgdi nú ekki verki! Björg gekk m.a.s. um og gaf öllum róandi blómadropa undir tunguna. Komumst loks upp á hótel Grace 5 klst eftir lendingu og var hópeflisæfing inni hjá Önnu Dís áður en við röltum niður í bæ í kvöldverð. Vorum frekar framlág og flengdum koddann snemma. -- Við innritunarborðið á Samoa: Oddný:,,Hvort er þetta karl eða kona?” Jói L.:,,Hann er örugglega í miðju breytingarferlinu …!!”

Dagur á Samoa

Allir frekar áttavilltir í kollinum sökum tímamismunar og voru vaknaðir fyrir allar aldir enda haninn í okkar hverfi vitlaust stilltur. Morgunverður á Aggie Grey´s hótelinu, sem var bæði griða- og GREIÐAstaður hér á árum áður, rann ljúft niður og síðan var lagt af stað í skoðunarferð með honum Sisilo sem ók okkur þegjandi og hljóðalaust um eyjuna. (YES!) Engin Beatrice þar á ferð! Óskar, Siggi og Halli urðu að fara út á völl að leita að tösku eins farþega sem týndist og í framhaldi af því fóru ,,Siggi & Hall” í eldhúsið að undirbúa matinn fyrir næsta legg. Þar áttu þeir sér fótum fjör að launa fyrir ágangi karlmanna sem vildu gjarna kynnast þeim miklu miklu betur. Eyjan Upalu sem Apia er á er skógi vaxin og fagurgræn eins og reyndar allar eyjarnar í Samoa-eyjaklasanum. Við ókum með nokkrum KODAK-stoppum á Lalomanu ströndina á suðausturhluta eyjarinnar og tókum busl í túrkisgrænum sjónum og eina netta neðansjávarmyndatöku a la Gonsi. Skoðuðum fossa og fagrar strendur og fengum að fara inn á sveitaheimili – opið hús – eins og þau eru öll hér á Samoa. Húsin eru þakið eitt á stöplum og heimilislífið (!) einungis hulið með örþunnum gardínum. Stutt er að fara og setja ljós á leiði látinna ástvina því í hverjum garði eru grafreitir hlaðnir blómum og skrauti Vorum alveg að verða bílveik þegar við renndum síðdegis inn í Apia og að sjálfsögðu beint á markaðinn til fatakaupa fyrir næsta legg. Hvíldum lúin bein við laugina þar til sólin settist, dinnerinn var innanhúss sökum syfju. Brottför snemma í fyrramálið. The Globetrotters bjóða góða nótt.

IPC - Apia, Samoa

Vöknuðum á Hangaroa Hilton við þá alverstu úrhellisrigningu sem vitað er um. Öldurnar brotnuðu á klettunum í fjörunni fyrir neðan hótelið og krafturinn í regninu var þannig að maður vissi ekki hvenær þakið mundi gefa sig. Þá komumst við að því hvernig villtu hestarnir lifa af hér í grasi sem virðist sölnað og jarðvegurinn vægast sagt þurr og lítið nærandi. Við stelpurnar höfðum dressað okkur upp í kaupfélaginu daginn áður og fjárfest í alls kyns fjaðrabúningum svo að þegar við tókum allt dótið upp voða montnar var eins og við hefðum lent í illvígum koddaslag. En eins og alltaf þurftum við nauðsynlega að taka síðasta umgang í búðinni góðu fyrir brottför því ,,maður getur lengi á sig fjöðrum bætt”! Á leið okkar upp á hótel aftur gengum við framhjá bátahöfn hvar mikill mannfjöldi stóð og hvatti og klappaði fyrir hópi vægast sagt fáklæddra karlmanna sem sigldu bast-kanóum sínum út fyrir bauju (að okkur sýndist) og svo til baka og var þetta eins konar boðsigling. Það var nú eiginlega alveg augljóst á hvað konurnar á bryggjusporðinum voru að horfa á. Vöðvastæltir og síðhærðir með liðað hárið í hnút hlupu þeir á g-strengnum út í sjóinn, skelltu sér á magann og réru kanóum sínum út. Okkur fannst sem þessi íþrótt ætti alveg erindi á Sjómannadeginum heima á Íslandi! Við höfðum öll þurft að tékka út kl 10.00 en fengum að halda eftir tveimur herbergjum fram til kl 14.00 þegar við áttum að mæta til vinnu. Aðstæður til að sturta sig og snyrta voru með skemmtilegra móti. Sex freyjur saman í einu pínulitlu herbergi, ferðatöskur út um allt, röð í hárþurrkuna og nælonsokkabuxur og fjaðrabúningar út um allt, strákarnir sex í hinu herberginu mun fyrirferðaminni☺ Nema hvað. Við tókum á móti farþegunum okkar í búningum innfæddra, strákarnir okkar krýndir fjaðurkórónum og það varð bara allt vitlaust. Þeim fannst þetta frábært uppátæki hjá okkur og eins og einn gestanna í hádegisverðinum á Anakena ströndinni daginn áður sagði: ,,You are so different from American crews, you look like you are having fun all the time !” Flugtíminn til Apia á Samoa-eyjum var 8:30 og við sluppum við að lenda á Tahiti til eldsneytistöku. Nóg var að gera á leiðinni enda tvær þjónustur og fólk farið að færa sig meira um vélina, kynnast betur innbyrðis og spjalla. Haldið var upp á tvö afmæli á leiðinni, Neil litli varð 9 ára og fékk skreytta afmælisköku rúllað upp að sætinu sínu ásamt íslenskum afmælissöng og sömuleiðis hún Susan í 3F ☺ Vorum örþreytt eftir daginn og lukum deginum með samsöng inni hjá mömmu – BJ – tímamismunurinn orðinn -11 klst. Anna Dís: ,, Á ég að segja ykkur nokkra fróðleiksmola? Gonsi geispandi: ,,Ertu ekki með e-mail adressurnar okkar …???”

TE PITO O TE HENUA - nafli alheimsins

Eftir ferskan og fínan morgunverð skelltum við okkur í túristaleik með Páskeyja-Beatrice sem leiddi okkur í allan sannleika um sögu eyjunnar á miður góðri ensku svo greyið var vart skiljanleg. En við skutum inn í og leiðréttum hana þar til hún var farin að tala bara við Björgu á spænsku og svo túlkaði Björg fyrir okkur. Páskaeyja var fyrst uppgötvuð af Pólynesum árið 318 e.Kr. nánar tiltekið af Henua Maka sem dreymdi draum um eyjuna og flutti hingað og hafði með sér hirð manna ásamt hænsnum, rollum og bananatrjám. Frægasta einkenni eyjunnar, MOAI stytturnar sjálfar, voru hoggnar út úr bergi eldfjallsins Ranu Raraku og reistar á gröfum höfðingja ættbálkanna sem talið er að hafi verið um tólf talsins. Viðkomandi stytta var síðan verndari þess þorps sem höfðinginn var frá . Virðing og stolt ættbálksins var mæld í MOAI styttunum og var það hin mesta niðurlæging ef stytta var felld á andlitið. Hið forna tungumál innfæddra, RONGORONGO, var myndletur sem þeir hjuggu út í viðar- og steinplötur og finnast á söfnum víða um heim en aðeins eru tvær plötur til hér á eynni. Það var svo um 1300 er eyjaskeggjar kollvörpuðu trúnni og innleiddu trú á guði í dýraríkinu t.d. fugla o.fl. Þar á meðal var guðinn MAGI MAGI (okkar Maggi hefur því fengið nýtt nafn!). Það voru víst fleiri en Þorgeir okkar ljósvetningagoði sem skellti sér undir feld og lét heila þjóð skipta um trú! Til gamans má geta þess að stjórnvöld í Chile neita að breyta klukkunni hér á eynni svo hér er sólbaðsveður fram yfir kvöldmat og ekki orðið almennilega bjart á morgana fyrr en um kl 09.00. Við höfum líka tekið eftir ótrúlega fallegum stjörnuhimninum eftir að dimma tekur sem gersamlega skilur mann eftir lamaðan enda ljósmengun engin.

Um hádegisbil var okkur síðan sleppt lausum með farþegunum 47 á Anakena ströndinni þar sem A&K bauð okkur í lunch og við fengum tækifæri til að kynnast farþegunum ögn betur. Þeir eru strax farnir að tala um okkur og flugvélina sem eina fasta punktinn í tilveru þeirra, staðinn sem færir þeim öryggistilfinningu. Á meðan á hádegisverðinum stóð læddust að tjaldinu fáklæddir eggjandi páskaeggjaleggjasteggir og sólbrúnar súkkulaðimeyjar sem undir tælandi trumbuslætti og skrækum Kyrrahafsgítar sveifluðu mjöðmunum eins og þeim einum er lagið. Þau dönsuðu og sungu fyrir okkur og var stolt þeirra fyrir eyjunni og sögunni næstum áþreifanlegt. Björgu var boðið upp í dans af þremur guðdómlegum líkömum og sló hún gersamlega í gegn eins og í Hollý á discoárunum í den. Okkur langar að flytja hingað! ps. Jóa var líka boðið upp, hann hafnaði fyrstu tveimur en lét síðan til leiðast :-) pps. sökum lítils nethraða í Kyrrahafinu verður næsta myndaalbúm sett inn í down under hjá Crocodile Dundee. A&K pax screaming:,,O my God! It´s the crew! In their civil !"


Lima - IPC (Páskaeyja)

Pick-up var á slaginu 08.00, því við vildum ekki lenda í morgunumferðinni sem er víst skæð þarna á götum Lima. Farþegana okkar fengum við svo beint úr innanlandsflugi frá Cusco en þeir fóru að hinni týndu Inkaborg Macchu Pichu sem er uppi í fjöllunum og of langt í burtu til að við hefðum getað farið þangað sjálf. Reyndar móðguðumst við nú pinku pons að þau skyldu ekki hafa notað okkar 757-u til að skutlast upp í fjöllin, við á okkar eigin einkaþotu!!! Hnusssss
En flugið til Páskaeyju gekk vel, allir sáttir, saddir og sælir og var lounge-inn vel nýttur til spjalls og spilamennsku.

Jói L.:,,Þarna er eyjan strákar!"
Gonsi:,,Einmitt! Ég sá hana fyrst!"

Tékkuðum okkur inn á hótel Hangaroa sem heitir eftir höfuðborg eyjunnar, því þar er annað hvort að HANGA eða RÓA - takk Dillý fyrir útskýringuna - og skelltum okkur út að borða hér niðri við sjóinn. NEMA HVAÐ! Á næsta borði við okkur sátu fjórir kvikmyndagerðarmenn, 3 frá Tahiti og einn frá París, og eftir mínútulangt spjall kom í ljós að þeir höfðu kvikmyndað og ljósmyndað flugvélina okkar fínu á útsýnisflugi okkar yfir eyjuna sem by the way vakti gífurlega hrifningu farþeganna okkar. Þeir ætla að senda okkur efnið liggaliggalái..

Gonsi við matarborðið:,,Reyndu að taka sjálfstæða ákvörðun eins og við Siggi tókum saman!"


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

9 World Wonders 6. febrúar - 2. mars 2008

Höfundur

Áhöfn FI-1452
Áhöfn FI-1452
Felias Fogg okkar tíma
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...-13_47-1254
  • ...-13_47-1252
  • ...-13_47-1251
  • ...-13_47-1247
  • ...-13_47-1246

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband