1.3.2008 | 20:08
Dagur í Cairo
Sííííííííðasta skipulagða skoðunarferðin. Pýramídarnir skulu það vera og hananú. Fengum hinn egypska Schumacher eða King of the Road, eins og hann vill láta kalla sig hér á götum Cairo, til að fara með okkur í heilt úlfaldahreiður við rætur svæðisins sem umlykur pýramídana. Af fenginni reynslu vildum við sleppa við hinar sívinsælu ilmolíukynningar og komum okkur beint að efninu. 12 úlfalda takk ! Skilum þeim eftir tvo tíma ! ☺ Flissandi liðaðist úlfaldalest Icelandair upp að pýramídunum frægu sem að vísu eru ekki eitt af sjö undrum veraldar lengur. Umgengnin í kringum þá er til háborinnar skammar og við veltum fyrir okkur hvers vegna hluti verðs aðgöngumiðans að svæðinu, sem er ekki lágt, væri ekki nýttur í hreinsunarflokk til að reyna að hemja fokrusl og annað sem er alveg skelfilegt lýti á þessum merkilegu minjum. Jafnvel ofan í gröfunum liggja plastpokar og plastflöskur á víð og dreif svo maður verður afhuga sögunni og verður hugsað til Sorpu heima í Gufunesinu. En allavega, burt frá fokrusli séð, er ekki laust við að maður fyllist lotningu þegar félagarnir þrír þeir Keops, Chephren og Mycerinus blasa við manni í eyðimörkinni með kóngabláan himininn í baksýn. Keops er elstur pýramídanna í Giza eða frá 2570 f.Kr. Hann er líka stærstur. Enda byggður yfir konunginn sjálfan og svo fylgdu arftakarnir sonurinn og sonarsonurinn í kjölfarið. Við fengum líka að fara ofaní gröf sem er nýfundin með steinkistu ofaní en sjálf múmían er á leið í þjóðminjasafnið hér í borg. Það var magnað að skríða ofaní kolsvart myrkrið, við sáum ekki neitt en fundum bara lykt úr fortíðinni og skynjuðum andrúmsloftið fyrir 4000 árum síðan eða við þóttumst allavega gera það. Magnað! Tókum 37 hópmyndir víða um svæðið og stilltum okkur upp eins og Sfinxinn. Þetta er BARA gaman. Í lok ferðar voru allir orðnir vel úlfaldaðir og renndu sér fimlega niður af dýrunum en þá tók við að borga blessuðum leiðsögumanninum og það eiginlega eyðilagði stemninguna. Það sem eftir lifði dags var frjáls tími!! Sumir fóru í íslenskt sólbað (gæsahúð og rok, handklæðið alltaf að fjúka burt en sól!!) en aðrir stóðu vaktina í gullbúðinni góðu. Nokkrir hringar, armbönd og hálsmen liggja í valnum eftir yfirferð íslenska landsliðsins og brosir búðareigandinn nú hringinn. Anna Dís skellti sér í Indiana Jones leik, fékk Ahmed leigubílstjóra til að skutla sér suður til Sakkara (Saqqarah) sem er um eina Keflavíkurfjarlægð í burtu frá Cairo en þar stendur elsti pýramídi Egyptalands, byggður/hlaðinn frá 2650-2575 f.Kr. Hann er kallaður þrepapýramídinn, líkist tröppum í lögun og er hann eins konar forveri Giza-pýramídanna. Á leiðinni til baka skoðaði hún teppagerð en teppi frá Sakkara eru ofarlega í gæðaflokki. Tóku hún og Ahmed heimleiðina með Formúlustíl. Um kvöldið dubbuðu menn og konur sig upp og mættu í fordrykk inni hjá Gonsa. Skáluðum fyrir frábærri ferð og samveru sem er í það veginn að taka enda. Anna Dís hafði upp á himneskum egypskum veitingastað þar sem runnu niður gómsætir innlendir réttir og að sjálfsögðu fylgdi sheisha pípa með eplatóbaki í eftirrétt. Stemningin var gífurleg. Eftir matinn skelltum við okkur á dansiball, tókum nokkra mjaðmahnykki eins og Cairo-stelpurnar og skemmtum okkur konunglega. Ása, þegar hún kom út úr leigubílshræinu:,,Þeir eru svo skítugir þessir leigubílar hérna að maður þarf að skeina sig þegar maður stígur út úr þeim
Um bloggið
9 World Wonders 6. febrúar - 2. mars 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (30.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.