29.2.2008 | 15:10
Aqaba - Cairo
Nú er bara korter í Ísland. Næstsíðasti leggurinn í dag en hann er með þeim styttri í þessari frábæru ferð sem telur nú 23 daga . Við skutluðumst yfir Sínaí skagann á 50 mín. og vorum lent í Cairo fyrir hádegi. Vorum afgreidd í gegnum ´private jet terminal´ á svipstundu, egyptarnir sleiktu frímerkin í passana á ógnarhraða og stimpluðu meðan áhafnarmeðlimir tæmdu hraðbankann í salnum. Það á sko að gera góð kaup í þessu síðasta stoppi ☺ . Á leiðinni inn í bæ sáum við unglinga sitja kæruleysislega uppá og út fyrir handrið í skólabyggingu sem var 5-6 hæðir og við gripum andann á lofti. Ég spyr enn og aftur, hvar er Herdís Storgaard í þessu landi?? Stuttu síðar ókum við fram á menn sem voru í jafnvægisæfingum uppi á flettiskilti í ca 30 metra hæð án alls öryggisbúnaðar. Við, sem sitjum árlega námskeið í Umhyggja alla leið, áttum ekki til eitt aukatekið orð.
Tékkuðum inn á Cairo Conrad, sem er 5 stjörnu hótel við Níl með útsýni yfir allt gúmolaðið svo vægt sé til orða tekið . Húsin hér í kring eru vægast sagt hrörleg en samt sem áður eru gervihnattadiskar eins og sveppagróður á öllum húsþökunum . Á þaki eins hússins fyrir neðan herbergi undirritaðrar eru endur, hænsn og 4 kindur á fjórðu hæð!!! Maður bara hristir hausinn.--- Fötin okkar fóru úr tísku meðan við biðum eftir ferðatöskunum okkar en á endanum náðum við þó öll saman niðri í lobbyi og haldinn var fundur um framhaldið. Ákveðið var að skella sér í súkkið (m.ö.o. markaðinn, ,,suq" á arabísku ) og fjárfesta í eðalmálmum ásamt fleiru. Það tók á taugarnar hjá sumum, eða bara flestum, að ferðast í gegnum þessa rússnesku rúllettu sem umferðarmenningin er hér í Cairo. Enginn Óli H Þórðar til að minna menn á að sýna tillitssemi og skynsemi í umferðinni - ó nei! Snæddum kvöldverð á veitingastað hinu megin götunnar við hótelið en til að komast þangað þurfti að komast yfir 4 akreinar og var það bara ´survival of the fittest´ að komast alla leið. Sá sem var vitni að hópi 12 öskrandi einstaklinga á grindarhlaupi yfir götuna hefur ekki haldið að þar færu miklar vitsmunabrekkur!! Bjóðum góða nótt í landi faraóanna.

Um bloggið
9 World Wonders 6. febrúar - 2. mars 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ef þið eigið leið framhjá hótelbarnum þá mæli ég með mjög góðum og hollum drykk þar sem er með svona grænum laufum í ;) Minnir að þetta séu minntulauf!!!!........hehheheeh Mjög cool að labba inná barinn og panta 12 svona drykki! Diskotekið hinum megin við götuna er líka alveg frábært ef þið komist upp með það að stjórna tónlistinni sjálf!! Bið að heilsa eyðimörkinni! GRM
Queen of the desert (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 15:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.