Jaipur - Bleika borgin

Kl 10.00 stundvíslega vorum við mætt með myndavélar á bumbunni niður í lobby á leið á vit nýrra ævintýra. Nýrra rústa, fornminja, markaða you name it. Daglegt brauð hjá okkur. Leiðsögumaður dagsins var merkilegt nokk bara frekar fyndinn og skemmtilegur svo að fyrsta hláturskastið tókum við áður en rútan ók út af hótelplaninu (fékk nokkra $$$ í lok dags). Leiðin lá fyrst í gegnum borgina þvera en það tók sinn tíma vegna heilagra kúa sem spígspora um göturnar og horfa hvorki til hægri né vinstri. Liggja jórtrandi þvert yfir umferðareyjar og njóta síðustu máltíðar. Borgin Jaipur er stærsta borg Rajasthan, fyrsta skipulagða borg á Indlandi, og þýðir nafn borgarinnar ´hin bleika borg´. Miðborgin er nefnilega bleik eða þannig, örugglega hjá litblindum, var og er enn reglulega máluð terracotta-rauðbrún. Hún er miðstöð gimsteinavinnslu í héraðinu og vinna rúmlega 170.000 manns við greinina. Leiðsögumaðurinn okkar, sem okkur minnir að heiti Rajid, sýndi okkur sérstaklega bíóið í bænum en Bollywood er náttúrlega dugleg að verpa nýjum myndum og eru vikulega frumsýndar 3-4 nýjar kvikmyndir og ganga þær fyrir fullu húsi í allt að 6 mánuði. ( Hrafn Gunnlaugsson, eat your heart out!) Svo lá leið okkar í Amber fort eða Gulu höllina en þar fyrir neðan biðu okkar 6 fræknir fílar og juðuðumst við upp fjallshlíðina í þvílíku gleðikasti að annað eins hefur hvorki sést né heyrst. Amber fort var byggt á 16. öld og var heimili Raja Jai Singh II Maharaja og síðar arftaka hans fram á nýlendutíma. Hann átti tólf eiginkonur en til þess að halda þeim öllum góðum og koma í veg fyrir óþarfa afbrýðissemi þá byggði hann höllina þannig að úr svefnherbergi hans lágu 12 leynigöng að dyngjum eiginkvennanna og var leikurinn þannig að þær máttu ekki banka hjá honum – bara hann hjá þeim. ,,He didn´t want any traffic-jam at his bedroom door” eins og Rajid sagði og okkur fannst bráðfyndið. Svo má eigi gleyma hjákonunum 96 sem hann stundaði ef hann langaði ekki í sínar 12! Í einni betristofum hallarinnar eru mögnuð listaverk á veggjunum eða m.ö.o. veggirnir eru eitt listaverk. Úthogginn marmari með blómamynstri, ekkert blómið eins, og fjöldinn allur af litlum mismunandi flísum sem minna á mosaík prýða veggina. Inn á milli eru glerflísar sem voru málaðar með sterlingsilfri að aftan svo þær líta út eins og spegilbrot. 7,5 milljón stykki af þeim takk fyrir!! Þannig náðu íbúarnir að ná endurkasti af olíulömpunum og magna upp ljóstíruna þegar rökkva tók. Snilld. Rajid sagði okkur líka frá páfuglinum sem er þjóðarfugl Indlands. Ef maður er fundinn sekur um að drepa páfugl má sá hinn sami eyða lífdögunum bak við rimla en ef maður fremur morð ,,then you can easily bargain your way out!” Á heimleiðinni heimsóttum við Gull & gimsteina hf og fjárfestu nokkrir í gulli og gimsteinum, öðrum nægði að fá að máta skartgripi og láta taka af sér myndir með þá. Hinu megin götunnar var Sari & sjöl hf og græddi búðareigandinn bara þokkalega á okkur þetta skiptið. Sagði að kaupóðir Íslendingar hefðu verið hjá þeim fyrir ca mánuði. Við könnuðumst ekkert við það!!! Eftir skoðunarferðina kusu drengirnir að slappa af á Gyllta túlipananum en dömurnar fóru annað hvort í handsnyrtingu á stofu sem hefði átt að bera nafnið “Beauty School drop-outs” og tók rúmlega klukkustunda sjálfsmorðsakstur á indverskum áttavilltum tuk-tuk eða rikshaw þó stofan væri bara hinu megin við hornið eða í nudd á þá svaðalegustu nuddstofu sem viðkomandi höfðu komið á. Fyrst þurfti viðtal við föður nuddstofueigandans en á skrifborði fyrir framan hann var hlustunarpípa og vigt á gólfinu. Ekki er laust við að tvær grímur hafi runnið á nuddóðu viðskiptavinina því þetta minnti á skoðun hjá skólahjúkkunni í 12 ára bekk. Borðuðum gómsætan indverskan mat um kvöldið og lögðumst til svefns vel upplýst um Maharajana. Stutt nótt fyrir höndum ☹ Smá viðbót frá Rajid: Vegna fjölda brúðkaupa sem við urðum vitni að á götum úti, eða öllu heldur brúðkaupsskrúðganga sagði hann okkur nokkrar staðreyndir um ´arranged marriages´ í Indlandi. Þegar brúðkaup er fyrirhugað hjá manni og konu láta foreldrarnir stjörnuspeking fara yfir stjörnukort þeirra beggja og vinna úr þeim ákveðna tölu á skalanum frá 1 - 36. Ef útkoman er fyrir neðan 18 þá passa þau augljóslega ekki saman og ekki verður af brúðkaupi. Útkoman hjá Rajid og frú var 28 svo hann er í góðum málum. :-)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Raja Jai Singh II Maharaja... þú ert nú meiri maðurinn... varst meina ég! Konurnar hans hafa greinilega ekki haft íslenska beinið í nefinu!!! 100 og 8 stykki!!! Eruð þið að grínast?! Var maðurinn bara ekkert með hugann við stjórn landsins??? Good life! Maður á náttúrulega ekki að vera öfundast, það er ekki fallegt!

Greinilegt er að ferðaþjónusta svæðisins er að gera góða verlsun á áhafnirnar í ævintýraferðunum ykkar :)

 Gaman að fylgjast með ykkur og skemmtilegum sögum af Felías Fog áhöfn íslands!  

Eigið gott framhald og ef allt gengur að óskum, Oddur frændi þá koma allir þínir fjölskyldumeðlimir í mat til mín á morgun, verður staðfest endanlega á eftir!

Kram
Trausti

Trausti Jónsson (IP-tala skráð) 26.2.2008 kl. 20:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

9 World Wonders 6. febrúar - 2. mars 2008

Höfundur

Áhöfn FI-1452
Áhöfn FI-1452
Felias Fogg okkar tíma
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...-13_47-1254
  • ...-13_47-1252
  • ...-13_47-1251
  • ...-13_47-1247
  • ...-13_47-1246

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband