23.2.2008 | 04:37
Siam Reap dagur 2
Á meðan ,,strákarnir okkar flatmöguðu við laugina og slöppuðu af fórum við stelpurnar í tuk-tuk inn að þorpinu fljótandi sem heitir einfaldlega The floating village. Það stendur á bökkum Tonle Sap vatnsins rétt fyrir sunnan Siam Reap. Fararstjórar og aðrir höfðu dregið úr okkur að fara þangað sökum þurrka og vatnsleysis en raunin varð önnur. Í þorpinu búa innfæddir ásamt Víetnömum og stunda þar verslun með vörur sínar. Sem við skröltum eftir rykugum veginum í átt til bakka árinnar sem rennur að vatninu fórum við framhjá óteljandi kofaskriflum byggðum á stultum því þarna hækkar vatnsborðið um fleiri metra nokkrum sinnum á ári svo er þá ekki bara best að búa í bát??? Í drullubrúnu vatninu stóðu fiskimenn og köstuðu netum sínum, konur þvoðu potta og pönnur meðan aðrir gengu örna sinna útí vatnið í næsta bát
brrrrr
. Þetta var hreint ótrúleg sjón. En fólkið var vingjarnlegt, leyfði okkur að ganga í bæinn og skoða kofana þeirra og taka myndir. Á leiðinni til baka upp ána tókum við uppí tvö lítil börn, 9 og 11 ára gömul systkin sem voru á leið í skólann sem að sjálfsögðu voru fljótandi skólastofur bundnar við bakkann. Við kíktum þangað líka og sögðum börnunum hvaðan við værum og sýndum þeim Ísland á hnattlíkani. Þau vissu nú greinilega ekki mikið um legu Íslands en heilsuðu og kvöddu okkur hressilega með því að hrópa kveðjur á kmer öll saman í kór. Engin agavandamál á þeim bænum.
Eftir þessa ævintýralegu skoðunarferð dóluðum við okkur heim á hótel og tókum út hvíld við laugina, allir nema Anna Dís sem skellti sér í loftbelg og fékk tækifæri til að mynda Angkor Wat frá allt öðru sjónarhorni en við hin :-) og svo skelltum við okkur öll í nudd. Nærri má geta að eftir dvöl okkar í Siam Reap liggi samanlagt á þriðja tug nuddtíma á hinum ýmsu nuddstofum í grennd við hótelið. Þeir eru bestu nuddarar í heimi! Borðuðum á frægasta veitingastaðnum á Pub street, Red piano, þar sem kokteillinn Tomb Raider selst eins og heitar lummur enda uppáhald verðandi tvíburamömmunnar og leikkonunnar Angelinu Jolie. Tókum síðasta nuddtímann fyrir svefninn, þurfum að vakna kl 04.00. Good night, under the moonlight and don´t let the bedbugs bite!!
Um bloggið
9 World Wonders 6. febrúar - 2. mars 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.