Færsluflokkur: Tónlist
13.2.2008 | 03:22
TE PITO O TE HENUA - nafli alheimsins
Eftir ferskan og fínan morgunverð skelltum við okkur í túristaleik með Páskeyja-Beatrice sem leiddi okkur í allan sannleika um sögu eyjunnar á miður góðri ensku svo greyið var vart skiljanleg. En við skutum inn í og leiðréttum hana þar til hún var farin að tala bara við Björgu á spænsku og svo túlkaði Björg fyrir okkur. Páskaeyja var fyrst uppgötvuð af Pólynesum árið 318 e.Kr. nánar tiltekið af Henua Maka sem dreymdi draum um eyjuna og flutti hingað og hafði með sér hirð manna ásamt hænsnum, rollum og bananatrjám. Frægasta einkenni eyjunnar, MOAI stytturnar sjálfar, voru hoggnar út úr bergi eldfjallsins Ranu Raraku og reistar á gröfum höfðingja ættbálkanna sem talið er að hafi verið um tólf talsins. Viðkomandi stytta var síðan verndari þess þorps sem höfðinginn var frá . Virðing og stolt ættbálksins var mæld í MOAI styttunum og var það hin mesta niðurlæging ef stytta var felld á andlitið. Hið forna tungumál innfæddra, RONGORONGO, var myndletur sem þeir hjuggu út í viðar- og steinplötur og finnast á söfnum víða um heim en aðeins eru tvær plötur til hér á eynni. Það var svo um 1300 er eyjaskeggjar kollvörpuðu trúnni og innleiddu trú á guði í dýraríkinu t.d. fugla o.fl. Þar á meðal var guðinn MAGI MAGI (okkar Maggi hefur því fengið nýtt nafn!). Það voru víst fleiri en Þorgeir okkar ljósvetningagoði sem skellti sér undir feld og lét heila þjóð skipta um trú! Til gamans má geta þess að stjórnvöld í Chile neita að breyta klukkunni hér á eynni svo hér er sólbaðsveður fram yfir kvöldmat og ekki orðið almennilega bjart á morgana fyrr en um kl 09.00. Við höfum líka tekið eftir ótrúlega fallegum stjörnuhimninum eftir að dimma tekur sem gersamlega skilur mann eftir lamaðan enda ljósmengun engin.
Um hádegisbil var okkur síðan sleppt lausum með farþegunum 47 á Anakena ströndinni þar sem A&K bauð okkur í lunch og við fengum tækifæri til að kynnast farþegunum ögn betur. Þeir eru strax farnir að tala um okkur og flugvélina sem eina fasta punktinn í tilveru þeirra, staðinn sem færir þeim öryggistilfinningu. Á meðan á hádegisverðinum stóð læddust að tjaldinu fáklæddir eggjandi páskaeggjaleggjasteggir og sólbrúnar súkkulaðimeyjar sem undir tælandi trumbuslætti og skrækum Kyrrahafsgítar sveifluðu mjöðmunum eins og þeim einum er lagið. Þau dönsuðu og sungu fyrir okkur og var stolt þeirra fyrir eyjunni og sögunni næstum áþreifanlegt. Björgu var boðið upp í dans af þremur guðdómlegum líkömum og sló hún gersamlega í gegn eins og í Hollý á discoárunum í den. Okkur langar að flytja hingað! ps. Jóa var líka boðið upp, hann hafnaði fyrstu tveimur en lét síðan til leiðast :-) pps. sökum lítils nethraða í Kyrrahafinu verður næsta myndaalbúm sett inn í down under hjá Crocodile Dundee. A&K pax screaming:,,O my God! It´s the crew! In their civil !"
Tónlist | Breytt 6.3.2008 kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
9 World Wonders 6. febrúar - 2. mars 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar